SAGA PRENTMETS

Prentmet var stofnað í apríl árið 1992 af hjónunum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttir. Höfð voru þrjú höfuðmarkmið að leiðarljósi: Hraði, gæði og persónuleg þjónusta. Í upphafi var fyrirtækið í 100 fm leiguhúsnæði á Suðurlandsbraut 50. Þar fór fram öll undirbúningsvinna fyrir prentun, þ.e. hönnun, setning, umbrot, skönnun, litgreining og filmuvinnsla. Þá sá Prentmet einnig um að koma verkum til fullvinnslu í prentun og bókband hjá öðrum fyrirtækjum.

Prentmet ehf. var í bláu húsunum Suðurlandsbraut

Prentmet við Suðurlandsbraut 50 frá 1992-1999.

Í byrjun voru aðeins tveir starfsmenn hjá Prentmeti. Fyrirtækið fór þó fljótlega að færa út kvíarnar og starfsfólki fjölgaði jafnt og þétt. Vel var fylgst með öllum tækninýjungum og stöðugt var verið að fjárfesta í öflugri og hraðvirkari vélum.

Árið 1995 urðu umskipti í rekstri Prentmets þegar það keypti sína fyrstu prentvél. Um var að ræða fullkomna fimm lita prentvél af Roland gerð og var prentsalurinn í 200 fm húsnæði í Skeifunni 6. Þetta sama ár keypti Prentmet G.Ó. prent, sem var stofnað af Guðmundi Óskarssyni, sem nú er framleiðslustjóri Prentmets. Einnig keypti Prentmet Prentverk Skapta Ólafssonar sem var stofnað 1971 af Skapta Ólafssyni prentara og söngvara. Nú var Prentmet orðið alhliða prentsmiðja. Síðan hefur fyrirtækið vaxið mjög hratt og býr yfir afar fullkomnum og hraðvirkum tækjum. Má þar nefna fullkomnustu staf­rænu prentvélina á landinu og fjórar mjög fullkomnar offsetprentvélar.

 

Í lok desember árið 2000 keypti Prentmet Prentberg í Kópavogi og Prentverk Akraness, sem heitir nú Prentmet Vesturlands.

Prentmet Vesturlands

Prentmet Vesturlands gefur út vikulegt auglýsingablað, Póstinn, sem dreift er frítt á öll heimili og fyrirtæki á Vesturlandi. Prentverk Akraness gaf Póstinn fyrst út 14. maí árið 1998.

„Prentsmiðja er eitt mesta menningartæki nútímans ef rétt er á haldið. Vilja eigendur nokkuð á sig leggja til þess að veruleg og varanleg not verði og treysta því að allir Akurnesingar og aðrir, sem unna þroska og menningu þjóðarinnar, styðji að því að þessi áfangi marki hér djúp spor í þessa átt.“ Þróunarsaga Prentverk Akraness, nú Prentmet Vesturlands, hófst upphaflega í marsmánuðI 1942. Þá komu saman fjórir bjartsýnis- og athafnamenn á Akranesi og ræddu þá hugmynd að hefja útgáfu á blaði fyrir bæinn. Þetta voru þeir Arnljótur Guðmundsson, Jón Árnason, Óðinn Geirdal og Ólafur B. Björnsson. Blaðið var gefið út og hlaut nafnið Akranes. Þar sem engin prentsmiðja var í héraðinu var það prentað í Reykjavík.

Sama ár kom ungur prentari að máli við Ólaf, Vilhjálmur Svan Jóhannsson að nafni, og bauðst til að selja Akurnesingum prentsmiðju með því skilyrði að hann yrði eigandi í fyrirtækinu. Þetta var auðsótt og var Prentverk Akraness stofnað í október 1942.

Aðaleigendur prentsmiðjunnar voru Vilhjálmur Svan Jóhannsson framkvæmda­stjóri, Arnljótur Guðmundsson, Þorgeir Jósefsson og Ólafur B. Björnsson en þrír síðasttöldu skipuðu stjórn prentsmiðjunnar. Rekstur prentsmiðjunnar var viðunandi en samt ákváðu eigendur að selja hana til Reykjavíkur í október 1945. Blaðið Akranes og annað fyrir bæjarbúa var prentað áfram í Hrappseyjarprenti eins og prentsmiðjan var nefnd um tíma áður en hún var aftur seld og nafnið lagt niður.

Ekki vildi Ólafur B. Björnsson við það una að vera prentsmiðjulaus og árið 1946 endurreisti hann ásamt fjölskyldu sinni Prentverk Akraness. Starfsmenn auk Ólafs voru eiginkona hans, Ása Ó. Finsen, Einar Einarsson prentsmiðjustjóri, Steinar Sigurjónsson prentari, Orla Vinther, danskur fagmaður, og aðstoðarmaðurinn Hulda Jóhannesdóttir.

Fyrsta árið var PA rekið í húsi Þorgeirs Jósefssonar á neðri hæðinni að Kirkjubraut 4 (nú verslunin NÍNA) við þröng skilyrði þar til prent­smiðjan var seld til Reykjavíkur. Þegar Ólafur endurreisti prent­smiðj­una festi hann kaup á nýlegu húsi að Heiðarbraut 20 af Teiti Guðmundssyni málarameistara. Prentsmiðjan var á neðri hæð hússins en prent­smiðju­stjórinn, Einar Einarsson, bjó á efri hæðinni. Þarna var starfsemin til ársins 1970 en þá var byggt 540 fm húsnæði að Heiðargerði 22, þar sem prent­smiðjan er enn í dag.

Þegar Prentverk Akraness v ar stofnað 1942 var keypt gömul setjaravél, gömul handílögð pressa frá 1879 sem þá kallaðist hraðpressa og jafnframt sú fyrsta sem kom til landsins. Hún var upphaflega keypt af Ísafoldarprentsmiðju og var blaðið Ísafold fyrst prentað í henni 9. júlí 1879. Pressa þessi var merkileg mjög, knúin með mannafli og snúið með hjóli. Tveir menn sneru eða stigu undir 600 eintökum eða örkum á klukkustund. Síðan var mótor tengdur við hana og urðu afköstin þá 1800 á klst. í stað 600.

Prentverk Akraness pantaði síðan ameríska pressu, „Kelly Klipper“, og hætti að nota hraðpressuna sem síðan fluttist til Reykjavíkur.

Þegar prentsmiðjan var endurreist keypti Ólafur nýja setjaravél frá Ameríku og nýjar fyrsta flokks prentvélar frá Reykjavík. Eigandi þessara véla var Finnbogi R. Valdimarsson fyrrv. ritstjóri sem var hluthafi í Prentverkinu skamman tíma.

Síðan flutt var í núverandi húsnæði hefur verið reynt eftir megni að fylgjast með þróun tækninnar, en hún er svo hröð að ógerningur hefur verið að tileinka sér alla þá tækni sem til staðar er í heiminum í dag.

Prentmet keypti Prentverk Akraness í desember árið 2000. Allt starfsfólkið hélt áfram að starfa þar nema Indriði Valdimarsson sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri. Guðmundur Ragnar Guðmundsson tók við framkvæmdastjóra­starfinu. Starfsmenn eru alls fimm fyrir utan eigendur.

Vélakosturinn í Prentverki Akraness er mjög góður. Þar má nefna eins lits Heidelberg GTO(36*52), eins lits Heidelberg Kors (52*72) og eins lits Heidelberg dígul (26*36). Í október 2001 tók Prentverk Akraness í notkun fullkomna fimm lita Roland prentvél en tveggja lita Heidelberg vél var seld.

Fjölritunarstofa Daníels Halldórssonar

Í janúar 2001 keypti Prentmet rekstur og 340 fm húsnæði Fjölritunarstofu Daníels Halldórssonar sem var í Skeifunni 6, á sömu hæð og Prentmet. Fjölritunarstofa Daníels var stofnuð árið 1927 af Daníel Halldórssyni og er elsta fjölritunarþjónusta á landinu.

Skeifan 6

Á haustdögum 1999 festi Prentmet kaup á 510 fermetra húsnæði í Skeifunni 6, í sama húsi og prentsalurinn, og flutti þangað í febrúar 2000. Þar var öll starfsemi Prentmets í 1300 fm eigin húsnæði þar til í desember 2002 og voru starfsmenn þá um 50 talsins.

Starfsmenn Prentmets í Skeifunni árið 2001.

Starfsmenn Prentmets í Skeifunni árið 2001.

Í mars 2002 keypti Prentmet Íslensku prentsmiðjuna ehf, öll tæki hennar og búnað. Öll starfsemi Íslensku prentsmiðjunnar var flutt í húsnæði Prentmets að Skeifunni 6. Í maí sama ár keypti Prentmet fullkominn bókbandsbúnað frá Heidelberg. Nú gat Prentmet séð um alla fullvinnslu prentgripa án þess að senda þá úr húsi til undirverktaka.

Lyngháls 1

Í desember 2002 flutti Prentmet alla starfsemi sína í glæsilegt 3800 fm atvinnuhúsnæði að Lynghálsi 1. Flutningar fóru aðallega fram helgina 20.–22. desember 2002. Húsnæðið var keypt af DeCode. Hans Petersen byggði þetta hús árið 1981 og var með starfsemi sína þar þangað til 1998 þegar DeCode keypti húsnæðið.

Föstudaginn 28. febrúar 2003 keypti Prentmet Félagsbókbandið-Bókfell, sem var stofnað árið 1988 af Einari Egilssyni forstjóra og Leifi Gunnarssyni verkstjóra. Félagsbókbandið-Bókfell hf. var stofnað úr tveimur fyrirtækjum, þ.e. Félagsbókbandinu, sem stofnað var árið 1903 af Guðmundi Gamalíelssyni, og Bókfell, sem stofnað var árið 1943 af Aðalsteini Sigurðarssyni, Gísla H. Friðbjarnarssyni, Guðmundi Kristjánssyni og Þórhalli Bjarnarsyni.

Í maí 2003 keypti Prentmet nýja umbúðaprentvél. Um er að ræða 6 lita Man Roland 706 með tvöföldu lakkkerfi (Water Bace/UV). Prentformatið er 740×1040 mm og pappírsþykkt er 0,4-1,1 mm. Vélin er sérstaklega hönnuð fyrir umbúðaprentun þó að hún henti jafnframt allri venjulegri prentun.

Í maí 2003 keypti Prentmet einnig límingarvél og stansvél. Um er að ræða fullkomnustu tæki sinnar tegundar hérlendis til umbúðaframleiðslu.

Prentmet Suðurlands

Í ágúst 2006 keypti Prentmet Prentsmiðju Suðurlands sem stofnuð var árið 1957.

Prentmet Suðurlands gefur út vikuritið Dagskrána. Dagskráin er með elstu héraðsfréttablöðum landsins, hefur verið gefin út frá 1. mars 1968. Blaðið er öflugt frétta- og auglýsingablað sem dreifist inn á öll heimili og fyrirtæki í Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk þess sem blaðið liggur frammi í stærstu verslunum og þjónustustöðum á Selfossi og nágrenni. Þá er blaðið sent til áskrifenda um allt land og víða erlendis.

Starfsmenn Selfoss

Örn Grétarsson prentsmiðjustjóri Prentmets Suðurlands á Selfossi og Magnús Hlynur Hreiðarsson ritstjóri árið 2008 á 40 ára afmæli Dagskrárinnar.

Þann 18. ágúst 2011 setti Prentmet í loftið dfs.is, sem er ferskur sunnlenskur fréttavefur og systramiðill Dagskrárinnar.

Prentsmiðja Hafnarfjarðar

Árið 2007 keypti Prentmet rekstur Prentsmiðju Hafnarfjarðar ehf.

Prentsmiðja Hafnarfjarðar var stofnuð árið 1946 af hjónunum Guðmundi Ragnari Jósefssyni og Steinunni Guðmundsdóttur. Guðmundur Ragnar rak fyrirtækið til dauðadags 18. ágúst 1962 en þá tók Steinunn við rekstrinum og rak prentsmiðjuna ásamt bróður sínum Árna, þar til þau létu af störfum fyrir aldurs sakir. 1996 tóku Guðrún og Ingibjörg, dætur Guðmundar Ragnars og Steinunnar, við rekstrinum og ráku fyrirtækið til ársins 2007 er það var selt.

Eins og áður segir keypti Prentmet rekstur Prentsmiðju Hafnarfjarðar og starfaði Ingibjörg þar til ársins 2014.

Prentmetsskólinn

Prentmetsskólinn var stofnaður í september 2005. Markmið hans er að upplýsa starfsmenn Prentmets um starfsemi í öllum deildum fyrirtækisins, umhverfi, þjónustu og framleiðslu og að þeir geti orðið almennt góðir í að kynna fyrirtækið.

Svansvottuð prentsmiðja

Prentmet í Reykjavík fékk 6. júlí 2011 vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum.

Prentmet Suðurlands á Selfossi fékk síðan vottun 11. september 2012 og Prentmet Vesturlands á Akranesi 19. nóvember 2012.

Prentmet hefur frá stofnun lagt sig fram við að minnka neikvæð umhverfisáhrif með skipulagðri endurvinnslu og öðrum áherslum sem styðja við umhverfisvernd. Markmiðin eru skýr og skuldbinding eigenda og stjórnenda fyrirtækisins er augljós og greinilega mikill áhugi meðal alls starfsfólks. Svansvottun prentsmiðjunnar tryggir að Prentmet er í fremstu röð hvað varðar lágmörkunmneikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsu.

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja.