Saga Prentverk Akraness

„Prentsmiðja er eitt mesta menningartæki nútímans ef rétt er á haldið. Vilja eigendur nokkuð á sig leggja til þess að veruleg og varanleg not verði og treysta því að allir Akurnesingar og aðrir, sem unna þroska og menningu þjóðarinnar, styðji að því að þessi áfangi marki hér djúp spor í þessa átt.“ Þróunarsagan hófst upphaflega í marsmánuðI 1942. Þá komu saman fjórir bjartsýnis- og athafnamenn á Akranesi og ræddu þá hugmynd að hefja útgáfu á blaði fyrir bæinn. Þetta voru þeir Arnljótur Guðmundsson, Jón Árnason, Óðinn Geirdal og Ólafur B. Björnsson. Blaðið var gefið út og hlaut nafnið Akranes. Þar sem engin prentsmiðja var í héraðinu var það prentað í Reykjavík.

 

Sama ár kom ungur prentari að máli við Ólaf, Vilhjálmur Svan Jóhannsson að nafni, og bauðst til að selja Akurnesingum prentsmiðju með því skilyrði að hann yrði eigandi í fyrirtækinu. Þetta var auðsótt og var Prentverk Akraness stofnað í október 1942.

 

Aðaleigendur prentsmiðjunnar voru Vilhjálmur Svan Jóhannsson framkvæmda­stjóri, Arnljótur Guðmundsson, Þorgeir Jósefsson og Ólafur B. Björnsson en þrír síðasttöldu skipuðu stjórn prentsmiðjunnar. Rekstur prentsmiðjunnar var viðunandi en samt ákváðu eigendur að selja hana til Reykjavíkur í október 1945. Blaðið Akranes og annað fyrir bæjarbúa var prentað áfram í Hrappseyjarprenti eins og prentsmiðjan var nefnd um tíma áður en hún var aftur seld og nafnið lagt niður.

 

Ekki vildi Ólafur B. Björnsson við það una að vera prentsmiðjulaus og árið 1946 endurreisti hann ásamt fjölskyldu sinni Prentverk Akraness. Starfsmenn auk Ólafs voru eiginkona hans, Ása Ó. Finsen, Einar Einarsson prentsmiðjustjóri, Steinar Sigurjónsson prentari, Orla Vinther, danskur fagmaður, og aðstoðarmaðurinn Hulda Jóhannesdóttir.

 

Fyrsta árið var PA rekið í húsi Þorgeirs Jósefssonar á neðri hæðinni að Kirkjubraut 4 (nú verslunin NÍNA) við þröng skilyrði þar til prentsmiðjan var seld til Reykjavíkur. Þegar Ólafur endurreisti prentsmiðjuna festi hann kaup á nýlegu húsi að Heiðarbraut 20 af Teiti Guðmundssyni málarameistara. Prentsmiðjan var á neðri hæð hússins en prentsmiðjustjórinn, Einar Einarsson, bjó á efri hæðinni. Þarna var starfsemin til ársins 1970 en þá var byggt 540 fm húsnæðI að Heiðargerði 22, þar sem prentsmiðjan er enn í dag.

 

Þegar Prentverk Akraness var stofnað 1942 var keypt gömul setjaravél, gömul handílögð pressa frá 1879 sem þá kallaðist hraðpressa og jafnframt sú fyrsta sem kom til landsins. Hún var upphaflega keypt af Ísafoldarprentsmiðju og var blaðið Ísafold fyrst prentað í henni 9. júlí 1879. Pressa þessi var merkileg mjög, knúin með mannafli og snúið með hjóli. Tveir menn sneru eða stigu undir 600 eintökum eða örkum á klukkustund. Síðan var mótor tengdur við hana og urðu afköstin þá 1800 á klst. í stað 600.

 

Prentverk Akraness pantaði síðan ameríska pressu, „Kelly Klipper“, og hætti að nota hraðpressuna sem síðan fluttist til Reykjavíkur. Þegar prentsmiðjan var endurreist keypti Ólafur nýja setjaravél frá Ameríku og nýjar fyrsta flokks prentvélar frá Reykjavík. Eigandi þessara véla var Finnbogi R. Valdimarsson fyrrv. ritstjóri sem var hluthafi í Prentverkinu skamman tíma.

 

Síðan flutt var í núverandi húsnæði hefur verið reynt eftir megni að fylgjast með þróun tækninnar, en hún er svo hröð að ógerningur hefur verið að tileinka sér alla þá tækni sem til staðar er í heiminum í dag.

 

Prentmet keypti Prentverk Akraness í desember árið 2000. Allt starfsfólkið heldur áfram að starfa þar nema Indriði Valdimarsson sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri en er í nánu samstarfi við PA þar sem hann skrifar greinar í Póstinn. Guðmundur Ragnar Guðmundsson tók við framkvæmdastjóra­starfinu. Starfsmenn eru alls sjö fyrir utan eigendur.

 

Vélakosturinn í Prentverki Akraness er mjög góður. Þar má nefna eins lits Heidelberg GTO(36*52), eins lits Heidelberg Kors (52*72) og eins lits Heidelberg dígul (26*36). Í október 2001 tók Prentverk Akraness í notkun fullkomna fimm lita Roland prentvél en tveggja lita Heidelberg vél var seld.