Kvenfélag Grímsneshrepps fagnar 100 ára afmæli sínu á árinu. Af því tilefni var ákveðið að gefa út bók um sögu félagsins sem ber nafnið „Kvennanna kjarkur og þor“. Það er Margrét Sveinbjörnsdóttir, menningarmiðlari, frá Heiðarbæ í Þingvallasveit sem er höfundur bókarinnar. Í bókinni er víða leitað fanga í heimildum í gömlum fundargerðarbókum en ekki síst með fjölbreyttum viðtölum við konurnar í kvenfélaginu. Þá er að finna fjölda ljósmynda í bókinni bæði úr einkasöfnum og af öðrum vettvangi.

Bókin er að öllu leyti unnin á Íslandi. Prentmet sá um alla vinnslu á bókinni; umbrot, prentun og bókband. Kápan er klædd dökkblárri klæðningu og þrykkt með silfurfólíu. Hlífðarkápa og innsíður eru prentaðar á umhverfisvænan pappír en Prentmet er Svansvottuð prentsmiðja.