Prentmet Logo

Fréttir

Skapti Ólafsson fallinn frá

Núna í ágúst kvöddum við félaga okkar Skapta Ólafsson prentara og söngvara. Prentmet keypti rekstur hans árið 1995. Við vorum svo lánssöm að hann vildi halda áfram að vinna og starfa með okkur. Þegar fyrirtækið keypti sína stærstu og fullkomnustu prentvél var henni gefið nafnið „Skapti Ólafsson“ í virðingarskyni við hinn aldna meistara. Nafnið Skapti þýðir skapari og það lýsir vel hans góða lífsstarfi. Hann var yndislegur maður, alltaf léttur í lund og hann var með einstaklega hlýja nærveru. Það gaf honum mikið að gleðja aðra. Honum var umhugað um vinnustað sinn og vinnufélaga. Skapti var duglegur að fræða okkur um gamla tíma, kenna ungu samstarfmönnunum réttu tökin og hvernig þeir ættu að koma fram og stunda vinnuna. Skapti var okkur öllum mjög góð fyrirmynd. Hann vildi hafa röð og reglu, nýta pappírinn vel, fara vel með hráefni og vélar og halda umhverfi og vélum hreinum. Honum var einnig umhugað um plönturnar á lóð fyrirtækisins, að þær fengju nægan áburð. Góðar minningar eigum við af sumarferðum Prentmets, árshátíðum og jólahlaðborðum. Sumarferðirnar fórum við ár eftir ár og alltaf mættu Skapti og eiginkona hans Kolbrún hress og kát, Skapti með gítarinn og stjórnaði hópsöng af sinni einstöku list. Ættjarðarlög og dægurlög voru sungin og yfirleitt tókum við lagið hans „Allt á floti allstaðar“ með honum. Fyrirtækið bauð þeim hjónum á alla viðburði meðan Skapti hafði heilsu. Við minnumst Skapta Ólafssonar öll með hlýhug og söknuði og sendum Kolbrúnu og allri fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

 

20935156 10155593941119754 8787746313685170769 o

 

20934750 10155593940234754 5043888323905988085 o

 

20988261 10155593941469754 5487560964642259594 o

 

20988512 10155593941639754 1212976580051404484 o

 

21055081 10155593940859754 4757936071285119763 o

Prentmet ehf. © 2015. Allur réttur áskilinn. | Vefhönnun: Björgvin Rúnar Valentínusson & Helgi Þór Guðmundsson