Prentmet Logo

Fréttir

Prentað kynningarefni er ennþá sterkasti miðillinn

Prentmet, ásamt auglýsingastofunni Pipar/TBWA, Póstdreifingu, Hvítlist, Gunnari Eggertssyni og Ólafi Þorsteinssyni, bauð gestum á hádegisverðarviðburð á Hilton Reykjavík Nordica í dag, 5. nóvember. Friðrik Eysteinsson, rekstrarhagfræðingur og einn fremsti sérfræðingur í markaðs- og sölumálum á Íslandi, fjallaði um rannsóknir sem hafa verið gerðar frá 2013 um mismun á árangri milli hefðbundinna miðla annars vegar og nýmiðla hins vegar. Niðurstöðunar voru sláandi og benda til að stjórnendur markaðsmála eigi að halla sér í ríkari mæli að beinum markpósti, fjölpósti og vörulistum og minnka áhersluna á auglýsingar á netinu.

Í rannsóknunum var notast við nýjar aðferðir sem fyrst var beitt árið 2013. Skoðaðir voru möguleikar einstaklinga á að sjá auglýsingar í mismunandi miðlum og það borið saman við neyslu á þeim vörum sem auglýsingarnar snerust um. Í niðurstöðum rannsóknanna kemur fram að hefðbundnir miðlar skili mun meiri hagnaði en netmiðlar. Í einu dæmi frá stórri amerískri verslunarkeðju​ kom fram að hátt í tveir þriðju markaðsfjár hefði best verið varið í prentað kynningarefni á borð við markpóst, fjölpóst og vörulista.

Rannsóknirnar sýndu fram á að auglýsingar í samfélagsmiðlum og netmiðlum hefðu mikil áhrif á heimsóknarfjölda inn á vefi fyrirtækja en lítil sannanleg áhrif í hagnaði fyrirtækja sem hlýst af markaðsstarfi. Niðurstöðurnar koma vafalaust mjög á óvart og ættu, ef eftir þeim er farið, að geta leitt til hagstæðari notkunar birtingafjár og þar með sparnaðar.

 

 

Prentmet ehf. © 2015. Allur réttur áskilinn. | Vefhönnun: Björgvin Rúnar Valentínusson & Helgi Þór Guðmundsson