Prentmet Logo

Fréttir

Starfsmenn fræddir um mataræði og heilsu

Mánudaginn 12. janúar fengu starfsmenn Prentmets hádegisfyrirlestur um mataræði og heilsu. Fyrirlesarinn var Jóhanna Eyrún Torfadóttir doktor í næringarfræði og leiðbeinandi hjá Þekkingarmiðlun.

 

Jóhanna tók það fram að í dag geti verið vandasamt að treysta þeim upplýsingum sem fólki eru gefnar um æskilegt mataræði vegna þess að sá sem gefur slíkar leiðbeiningar gæti haft hag af því að veita þær. Eins getur reynst mikil áskorun að vinna úr öllum þeim misvísandi upplýsingum sem berast frá fjölmiðlum og fjölda vefsíðna um hvernig sé best að haga mataræði sínu.

 

Í fyrirlestrinum fór hún yfir hvernig leiðbeiningar um næringu geta verið misjafnar eftir því á hvaða lífsskeiði fólk er og hvaða sjúkdóma það er að kljást við. Þá var mikil áhersla lögð á að útskýra og segja frá opinberum ráðleggingum um mataræði í forvarnarskyni gagnvart hinum ýmsu sjúkdómum svo sem gegn krabbameinum, offitu, sykursýki, beinþynningu og svo framvegis. Einnig voru tekin dæmi um hvernig á að lesa út úr merkingum um matvæli og þá sérstaklega næringargildismerkingum. Fólk er hvatt til að hreyfa sig daglega - að lágmarki 30 mínútur á dag og nota hvert tækifæri til hreyfingar td að nota stiga og leggja svolítið frá útidyrum o.s. frv.

 

Fjölbreytt og reglulegt mataræði er það sem þarf og við þurfum að vera dugleg að neyta grænmetis og ávaxta daglega, fá trefjar og líka eitthvað af kolvetnum, neyta fisks að lágmarki tvisvar í viku og takmarka kjötneysluna. Hún hvatti okkur til að takmarka harða fitu því að hún hækkar LDL kólesteról og ýtir undir hjarta- og æðasjúkdóma. Nauðsynlegt fyrir líkamann er að neyta mjúkrar fitu sem við fáum úr ýmsum olíum, hnetum, fræjum og lýsi.

 

Næringarfræðslan var kærkomin eftir alla hátíðisdagana og fyrir fólk til að tileinka sér góðan og heilsusamlegan lífsstíl á nýju ári.

 

 

heilsufyrirlestur

Prentmet ehf. © 2015. Allur réttur áskilinn. | Vefhönnun: Björgvin Rúnar Valentínusson & Helgi Þór Guðmundsson