Prentmet Logo

Fréttir

Glæsilegu ritsafni skáldkonunnar Erlu fagnað í Félagslundi

Afkomendur skáldkonunnar Erlu, Guðfinnu Þorsteinsdóttur, komu saman í Félagslundi í Flóahreppi laugardaginn 28. september þar sem nýju og glæsilegu ritsafni skáldkonunnar var fagnað. Prentmet sá um prentun og umbrot á ritsafninu og  öskju ritsafnsins og var fyrirtækinu hrósað í hástert fyrir frábæra þjónustu og fagmannlega unnið verk á útgáfuhátíðinni.   Um er að ræða fimm bækur í fallegri öskju með ljóðum Erlu. Fjórar bækur geyma hugverk skáldkonunnar og fimmta bókin er um líf og ritstörf hennar. Guðfinna fæddist  27. júní 1891 og átti níu börn með manni sínum, Pétri Valdimar Jóhannessyni, alltaf nefndur Valdimar. Þess má geta að Guðfinna bjó á Selfossi sín síðustu ár og er jarðsett þar.

 

Um skáldkonuna

 

Skáldkonan Guðfinna Þorsteinsdóttir, öðru nafni Erla, var meðal frumkvöðla  í íslenskri bókmenntasögu. Hún var ein örfárra kvenna sem fékk útgefið efni eftir sig fyrir miðja síðustu öld. Afköst hennar á yngri árum voru með ólíkindum. Alls gaf hún út sex bækur. Auk þessa var hún húsmóðir í sveit, ól upp níu börn og bjó lengst í Teigi í Vopnafirði ásamt eiginmanni Pétri Valdimar Jóhannessyni. Seinna meir átti Guðfinna mikil tengsl  við Selfoss og Flóann.  Á efri árum  flutti hún til  Guðrúnar dóttur sinnar og margir muna eftir henni er hún bjó á Birkivöllum 18 á Selfossi.  Margrét dóttir hennar bjó síðan í Gaulverjabæ. Verkin voru fjölbreytt, þrjár ljóðabækur, frásagnaþættir og þýddar skáldsögur. Barnaljóð hennar og þulur þykja einstakar. Guðfinna naut engrar menntunar utan  farskóla í æsku. 

Margt að höndum misjafnt ber,


mætum örugg flestu

því að hvernig úr því er


unnið - skiptir mestu

.
...

Tækifærið tefur ei,


taktu það í skyndi,


annars berst það frá sem fley


fyrir hvössum vindi. 

Félag ljóðaunnenda á Austurlandi

 

Verk Guðfinnu hafa verið ófáanleg um margra áratuga skeið en nú eru þau komin út í heildarútgáfu í haganlegri öskju. Ritstjóri verksins er Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir lektor í íslensku við Háskóla Íslands. Hægt er að fá nánari upplýsingar um ritsafnið hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi í síma 475-1211  og  867-2811. Þar er það selt á 19.000 krónur en verður mun dýrara í verslunum.

 

 

 Erla 1

Dætur Erlu (frá vinstri) þær Guðrún 93 ára og Hildigunnur 83 ára og tengdabörnin Sólveig Einarsdóttir og Guðjón Sigurðsson þegar þau tóku við fyrstu eintökunum af nýja ritsafni skáldkonunnar í Félagslundi.

 

Erla 2

Ritstjóri ritsafnsins Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir og Magnús Stefánsson hjá Félagi ljóðaunnenda á Austurlandi voru leyst út með blómvöndum í Félagslundi en þau eiga meira og minna allan heiðurinn af ritsafninu, ásamt stjórn Erlusjóðs.

 

Erla 3

Prentmet á heiðurinn af umbroti, prentun og öskju ritsafnsins. Fyrirtækinu og starfsfólki þess var hrósað í hástert fyrir frábæra þjónustu og fagmannlega unnið verk á útgáfuhátíðinni.

 

Erla 4

Guðrún dóttir Guðfinnu stóð upp í Félagslundi og flutti eitt af uppáhaldsljóðum móður sinnar af sinni alkunnu snilld. Guðrún sem er 93 ára gaf út ljóðabókina Bláklukkur fyrir tveimur árum.

 

 Erla 5

Guðfinna byrjaði snemma að yrkja, hér eru þrjár vísur frá henni en hún var ekki nema 9, 11 og 17 ára þegar hún samdi þær.

 

Erla 6

Stoltar dætur með ritsafn móður sinnar, þær Guðrún og Hildigunnur. Alls voru systkinin níu en þær eru einar á lífi af þeim.

Prentmet ehf. © 2015. Allur réttur áskilinn. | Vefhönnun: Björgvin Rúnar Valentínusson & Helgi Þór Guðmundsson