Dagatal Prentmets 2018

Janúar

Hann janúar er jökulkaldur,
hann jafnan geymir mikinn snjó,
í myrkri er að mörgu valdur
og mönnum gefur kyrrð og ró.

Þá margur bætir mataræði
og megrun þykir býsna holl,
menn ráðast á hið rétta fæði
og ræktin tekur stóran toll.

Febrúar

Og febrúar svo ferskur lætur
hér fannir liggja yfir jörð
og stormar koma kaldar nætur
með klakabönd og frostin hörð.

Nú þunglyndi og þraut og leiða
hér þjóðin fær að taka mót,
menn fyrir kreditkortin greiða
og koma sér á þorrablót.

Mars

Hann mars hann er á marga vegu
magnaður um nokkra hríð
og stormaöflin ógurlegu
hér enda langa vetrartíð.

Með drauma vorsins dagar allir
dásamlega fagrir sjást
og hönnuðirnir hérna snjallir
í hóp með mottumarsi slást.

Apríl

Og apríl kemur oft með blíðu
og eyrun greina fuglasöng
er sólarljósið sendir þíðu
þá sést að dægrin verða löng.

Að vetri ljúki, víst við þráum
og vegleg páskahelgin er.
Við sumardaginn fyrsta fáum
þótt finnist klakabrynja hér.

Maí

Hann maí fær gjarnan góða dóma,
hann getur verið afar hlýr
þá fær að vakna fjöldi blóma
með fegurð sem í jörðu býr.

Þá sofnar vetrar svikamylla
og sólin vermir lífsins glaum
og íslensk þjóð fer út að grilla
og eignast júróvísjon-draum.

Júní

Og júní kemur hér með hlýju
með honum tekur birtan völd,
og okkur gleðja enn að nýju
hin yndislegu sumarkvöld.

Í ísbúðirnar allir fara
og útivistin blómstrar hér.
Á sautjándanum sjá má skara
því sigrum þjóðar fagnað er.

Júlí

Í júlí ilmar allt af blóma
og urtir landsins stækka fljótt,
þá fuglasöng við heyrum hljóma
um hlýja, bjarta sumarnótt.

Hér útsölur að sumri sýna
að sátt við lífið þjóðin er
og geislar sólar glaðir skína
þótt geitungarnir skemmti sér.

Ágúst

Og ágúst, hreinn og undurfagur
fær endað bjarta sumartíð
en þó að stöðugt styttist dagur
um stund hér vaka öflin blíð.

Í miðborginni menning dafnar
og maraþon í Reykjavík,
gay pride sinni gleði safnar
í göngu sem er engu lík.

September

Í september fer senn að dimma
og sólin lækkar flugið þá
um fjöllin læðist frostið grimma
en fegurð haustsins víst má sjá.

Og núna ýmis námskeið byrja,
og nætur skapa frið og ró.
Að rjúpnaskyttum skal þá spyrja
svo skundar fólk í berjamó.

Október

Í október því yndi lýkur
sem okkur veitti sumartíð
og brátt um landið fönnin fýkur
með frost og dökka vetrarhríð.

Litur bleikur, langar nætur,
á landi skyttur týnast nú
og Yoko Ono ljósið lætur
lifa einsog himnabrú.

Nóvember

Og nóvember með dimma daga
og dulúð boðar kyrrð og frið,
þá birtist lífsins ljúfa saga
þótt langur vetur blasi við.

Í umferðinni aukast tafir
og airwaves-fólkið fer á stjá,
er jólahlaðborð, jólagjafir
og jólalögin hljómað fá.

Desember

Í desember í dökkum skugga
svo dásamleg við eigum jól
og þegar frostrós grær á glugga
við getum séð að hækkar sól.

Frá verslun eru vörur sendar,
menn vilja eyða kaupinu.
Og hringinn þjóðin alsæl endar
með áramótaskaupinu.